Skáldagatan

Skáldagatan Á árunum 1940 og þar til um 1965, var Hveragerði þekktast fyrir listamennina sem þar bjuggu, en þar voru skáld og rithöfundar, tónskáld, listmálarar og myndhöggvarar. Allt voru þetta þekktir menn og leiðandi í menningar- og menntamálum þjóðarinnar. Þar má nefna skáldin og rithöfundana Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk og Gunnar Benediktsson og einnig hinn landskunna hagyrðing sr. Helga Sveinsson, tónskáldið Ingunni Bjarnadóttur og myndlistarmennina Höskuld Bjarnsson, Kristin Pétursson, Ríkarð Jónsson og Gunnlaug Scheving. Í kringum þetta fólk var líf og fjör og þekkt voru garðyrkju- og listamannaböllin þar sem skáldin leiddu saman hesta sína. Skáldin bjuggu flest við götu sem nú heitir Frumskógar en var áður nefnd Skáldagatan.

Miðsel,- Frumsógar 10.

Jóhannes úr Kötlum kom til Hveragerðis haustið 1940 og bjó fyrsta veturinn í Gufuskála, sumarbústað, nú Bláskógar 15. Hann byggði Miðsel og bjó þar árin 1941-1946. Þá fór hann til ársdvalar í Svíþóð og Gunnlaugur Scheving listmálari keypti Miðsel og bjó þar til ársins 1949 er hann seldi húsið. Jóhannes úr Kötlum kom aftur til Hveragerðis 1947, byggði þá Hnitbjörg, nú Brattahlíð 9, og bjó þar til ársins 1959.

skaldagatan[1]

Garðshorn,- Frumskógar 9.

Kristmann Guðmundsson kom til Hveragerðis í desember 1940. Fyrsta veturinn bjó hann að Melavöllum, nú Breiðamörk 18. Þá byggði hann Garðshorn og bjó þar árin 1941-1960. Garðrækt hans varð landsfræg og ýmsar plöntur flutti hann fyrstur til Íslands. Stutt var á milli þeirra Kristmanns og Jóhannesar og þessar hendingar flugu þar á milli

Jóhannes kvað:

Lít ég þann er list kann,
löngum hafa þær kysst hann,
Kristmann.
og Kristmann sendi um hæl.
Einkum þó vér ætlum
að þær fari úr pjötlum
í Kötlum.

Kristmann og kvenhylli hans er Jóhannesi einnig ofarlega í huga þegar hann orti snemma á sjötta áratugnum þekkta vísu. Annað tilefni vísunnar var það að byggt var hús yfir héraðslækninn, Magnús Ágústsson, þar sem nú eru skrifstofur Hveragerðisbæjar. Húsið þótti mikil glæsihöll og meðal annars voru á því sjö útidyr.
Sjö eru hæðir sólarranns,
Sjö eru dalir, líka fjöll.
Sjö eru brúðir sama manns.
Sjö eru dyr á einni höll.

Smáragrund,- Frumskógar 11.

Ríkarður Jónsson myndlistamaður byggði Smáragrund sem sumarbústað 1941. Hann dvaldi þar löngum á sumrum og er húsið nú eign dætra hans.

Ljósafell,- Frumskógar 7.

Séra Helgi Sveinsson bjó þar 1942-1964. Séra Helgi var hraðkvæður með afbrigðum. Dæmi þar um er þegar hann sat að morgni dags inni á kennarastofu barnaskólans í Hveragerði. Ungur kennari, Bjarni Eiríkur Siguðsson kom inn og sá Gunnar Benediktsson þar við fatahengið.

Orð féllu á þennan veg.

Bjarni segir: Góðan daginn Gunnar Ben.
Gunnar svarar: Góðan daginn Bjarni.
Séra Helgi spyr: Er það satt að Ottesen eigi von á barni?
Sá sem barnsins átti von var Oddgeir Ottesen Frumskógum 3.

Einhverju sinni sá Jóhannes úr Kötlum séra Helga uppi á þaki húss síns að mála það rautt.

Jóhannes kvað:

Hvítfágað mun hjartað mitt
hirðirinn minn góði,
fyrst hann þannig þakið sitt
þvær úr lambsins blóði.
Séra Helgi svaraði af bragði:
Þig að fága þýðir lítt,
Þú er ljóti kallinn,
Á þér sést nú ekkert hvítt
eftir nema skallinn.

Þegar Ásgeir Ásgeirsson var nýkjörinn forseti fjallaði sýslunefnd Árnessýslu um móttökur í opinberri heimsókn forsetans austur yfir fjall. Séra Helgi var í sýslunefndinni og var hann beðinn að yrkja drápu og flytja forsetanum á Kambabrún. Séra Helgi tók því þunglega en lét þó til leiðast. Nokkru síðar var hann spurður hvernig gengi og lét hann vel yfir og flutti fyrsta erindið.
Heilsa þér á heiðarbrún
höfðingjar í löngum röðum,
loðin engi, loðin tún,
loðinn Geir á Bessastöðum.

Ásgeir hafði fyrrum verið Framsóknarmaður en flutt sig í Alþýðuflokk og var því kallaður loðinn í pólitík af andstæðingum. Ekki var séra Helgi beðinn um að yrkja meira og drápan því aldrei flutt forsetanum.

Vin,- Frumskógar 5.

Gunnar Benediktsson rithöfundur flutti til Hveragerðis haustið 1943 og bjó að Gufuskála. Árið eftir keypti hann Vin, sem Guðmundur Í. Guðmundsson, síðar utanríkisráðherra, hafði byggt sem sumarbústað, og bjó þar árin 1944-1975. Gunnar kom mikið að félagsmálum og var í fyrstu hreppsnefnd Hveragerðis. Landleysi hins nýja sveitarfélags lýsti hann með eftirfarandi hætti:
Hér er kominn hreppur nýr
hann er sagður kostarýr
Þegar lífs við brjótum brýr
bæði segi og skrifa.
Í öllum hreppnum engin mold
Í að greftra látið hold.
Við neyðumst til að nuddast við að lifa.

En svo er aftur önnur sveit
einstaklega kostafeit
enga frjórri augað leit
um að tala og skrifa.
þar er þessi þykka mold
þar má greftra látið hold,
þar eru menn sem þurfa ekki að lifa.

Við þetta situr enn og látnir Hvergerðingar grafnir í Kotströnd í Ölfusi.

Bræðraborg,- Frumskógar 6.

Húsið var byggt árið 1942 og þar bjó Kristján Einarsson frá Djúpalæk árin 1950-1961. Í þann tíð voru vínbúðir ekki á hverju götuhorni og því keyptu menn oft pytlu fyrir vini sína ef þeir áttu leið til Reykjavíkur. Einhverju sinni hafði Jóhannes úr Kötlum lofað Kristjáni frá Djúpalæk að útvega honum eina flösku í bæjarferð.

það misfórst og brást Kristján við með þessum hætti.

Ég skal vaka fram á fjöru,
fantinn taka strax í kveld,
ég skal maka Jóa úr tjöru,
ég skal baka hann við eld.

Jóhannes lét hann ekki eiga lengi hjá sér og svaraði:

Að kveikja í Stjána er kostur rýr
og krónutap það yrði,
því tjaran er svo djöfull dýr
en drengurinn einskis virði.

Jóhannes úr Kötlum sá út um glugga hvar Kristján frá Djúpalæk var að aðstoða nágrannakonu sína, Guðfinnu að nafni, við garðyrkju.

Hann sendi Kristjáni tóninn út um gluggann:

Finnfirðingur furðuslyngur
Finnu kringum dansar glatt
Mokar, stingur, másar, springur
með sinn skringilega hatt.

Kristján svaraði:

Meðan ég er að moka skít
meyja ást og virðing hlýt.
Skammir gegnum gluggann les
Goddastaða Jóhannes.